Valmynd

L÷g K÷rfuknattleiksfÚlags ═safjar­ar

1. grein. Heiti og heimili.

Félagið heitir Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar, skammstafað KFÍ. Heimili þess og varnarþing er á Ísafirði.

 

2. grein. Tilgangur og markmið.

Tilgangur félagsins er iðkun körfuknattleiks og markmið þess er að stuðla að útbreiðslu og áhuga á körfuknattleik. Þessu markmiði hyggst félagið ná með því að:

 1. Halda uppi reglubundnum æfingum í körfubolta í öllum aldursflokkum fyrir bæði kynin.
 2. Standa fyrir og taka þátt í íþróttamótum.
 3. Vinna að öðru leyti eftir markmiðum og stefnuskrá UMFÍ, ÍSÍ og KKÍ.

3. grein. Félagar.

Félagi telst hver sé sem tekur þátt í starfi félagsins og er skráður félagi í KFÍ.  Stjórn félagsins heldur skrá yfir félaga með aðstoð Barna- og unglingaráðs KFÍ.

 

4.grein. Merki félagsins.

Merki félagsins er hringlaga, blátt og rautt að lit á hvítum grunni. Í miðju merkisins er skammstöfunin KFÍ  ásamt körfu, leikmanni og bolta á lofti. Merkið er hannað af Pétri Guðmundssyni.

 

5. grein. Skipulag félagsins.

Málefnum félagsins stjórna:

a) Aðalfundur

c) Barna- og unglingaráð

Starfs- og reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

6. grein. Aðalfundur.

Aðalfundur fer með æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert. Stjórnin skal auglýsa hann með minnst 10 daga fyrirvara á heimasíðu félagsins og með rafpósti til félagsmanna. Aðalfundur telst löglegur ef rétt hefur verið til hans boðað.

 

7. gr. Verkefni aðalfundar.

Verkefni fundarins skulu vera:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár.
 3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 4. Kosning formanns til eins árs.
 5. Kosning tveggja stjórnarmanna til tveggja ára.
 6. Kosning þriggja manna í varastjórn til eins árs. 
 7. Kosning tveggja skoðunarmanna.
 8. Kosning nefnda.
 9. Lagabreytingar.
 10. Önnur mál.

8. gr. Atkvæðisréttur og kjörgengi.

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn. Rétt til kjörgengis í stjórn eiga þeir félagar sem eru orðnir 18 ára.

 

9. gr. Aukafundur.

Aukafund félagsins má halda ef stjórn álítur þess þörf eða ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra félagsmanna óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið það fundarefni er ræða á. Aukafundur er lögmætur ef til hans er boðað með helmingi styttri tilkynningarfresti en mælt er fyrir um í 5. gr. Um atkvæðisrétt og kjörgengi á aukafundi fer eftir 7. gr. Á aukafundi má ekki gera lagabreytingar.

 

10. gr. Stjórn félagsins.

Stjórn félagsins er skipuð fimm manns: Formanni, gjaldkera og ritara auk tveggja meðstjórnenda.  Stjórn skal vera kosin á aðalfundi félagsins. Formaður er kosinn til eins árs og skal hann kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir kjör. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, þó þannig að aðeins skal kosið um tvo árlega.  Á aðalfundi skulu einnig vera kosnir þrír menn í varastjórn til eins árs. 

 

11. gr. Starfssvið stjórnar.

Stjórn fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda. Hún skal marka stefnu þess á milli aðalfunda og fer með daglegan rekstur og umsýslu félagsins. Henni ber að vinna að alhliða eflingu þess og gæta hagsmuna félagsins í hvívetna.  Formaður skal boða til og stjórna öllum stjórnarfundum. Gjaldkeri hefur á hendi allar greiðslur félagsins og ber ábyrgð á reikningum félagsins. Ritari heldur gjörðarbók félagins og innfærir samþykktir og stuttar frásagnir af því sem gerist á hverju starfsári, og sér um að varðveita bréf og skjöl félagsins. Stjórn skipar nefndir á vegum félagsins sem starfa í tengslum við aðalstjórn.

 

12. gr. Barna- og unglingaráð.

Barna- og unglingaráð heyrir undir stjórn KFÍ og skipar hún í ráðið. Í samstarfi við stjórn skipuleggur Barna- og unglingaráð þjálfaramál yngri flokka og sinnir allri umsýslu vegna barna- og unglingastarfs félagsins.

 

13. gr. Niðurlagning félagsins.

Tillögur um að leggja félagið niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi, og þarf til þess samþykki ¾ hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna, sbr. 7. gr. Leysist félagið upp skulu eignir þess renna til HSV sem varðveitir þær þar til annað félag er stofnað með sama tilgangi.

 

14. gr. Lagabreytingar.

Lögum þessum má ekki breyta nema á lögmætum aðalfundi félagsins, og þarf til þess samþykki 2/3 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna, sbr. 7. gr. Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 10 dögum fyrir aðalfund félagsins.

 

15. grein. Aðildarsamtök.

Með aðild sinni að Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV) er félagið aðili að Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ).

 

16. grein. Gildistaka.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi þann 8. maí 2013 og öðlast þegar gildi.  Jafnframt eru felld úr gildi eldri lög félagsins.

Fylgdu okkur ß
Facebook
Fylgdu okkur ß
Twitter

Leikir og atbur­ir

NŠstu atbur­ir
Vefumsjˇn